Engar vörur í körfunni
Síðan Barbour var stofnað árið 1894 af John Barbour hefur fyrirtækið alltaf verið rekið af og verið í eigu Barbour fjölskyldunnar. Í dag er langa-langa-afabarn Johns, Helen Barbour við stjórnvölin ásamt móður sinni. Aðalsmerki fyrirtækisins er vaxfatnaðurinn sem við á Íslandi þekkjum svo vel. Vandaðir jakkarnir úr vaxbornu bómullarefni hannaðir til að skýla fólki fyrir blautu og vindasömu veðrinu á Bretlandseyjum eiga svo sannarlega vel við hér heima. Barbour jakkinn er stéttlaus flík ef svo má að orði komast. Notaður bæði af bændum og kóngafólki, því sama hver við erum þá þurfum við skjól frá náttúruöflunum... og ekki er verra að líta vel út á meðan.
1894John Barbour stofnar J Barbour & Sons á South Shields í Englandi. |
Í seinni heimsstyrjöldinni hannaði og framleiddi Barbour Ursula jakkann í samstarfi við George Philips kaftein á Ursula kafbátnum. Jakkinn varð að einkennisklæðnaði kafbátadeildar englendinga í seinna stríði.
Áratugum saman hefur saga mótorhjólamenningar á Englandi verið samofin Barbour. Duncan Barbour, barnabarn John, kynnti til sögunnar mótorhjólafatnað sem sló heldur betur í gegn. International jakkinn er enn í framleiðslu í dag og var hann í miklu uppáhaldi hjá Steve McQueen. |
Breska kóngafjölskyldan tók snemma ástfóstri við Barbour jökkunum og klæðast þau gjarnan ólívugrænum jökkunum þegar þau njóta lífsins á sveitasetrum sínum. Barbour hefur hlotið þrjár konunglegar viðurkenningar, þá fyrstu frá Karli bretaprins árið 1974. Sjónvarpsáhorfendur fengu síðan vænan skammt af kóngafólki í vaxjökkum þegar þáttaserían The Crown kom í sýningu. Sala á Barbour tók mikinn kipp á heimsvísu í kjölfar þáttanna.
Vaxjakkar verða fallegri því meira sem þeir eru notaðir. Það þarf að hugsa vel um þá, vaxbera á 12-18 mánaða fresti til að viðhalda vatnsvörninni og setja bætur þar sem þeir hafa rifnað eða slitnað. Skemmtilegustu jakkarnir eru þeir sem eigandinn getur sagt margar sögur um og gefið skýringar á hverri bót sem prýðir jakkann. Einn þekktasti jakkinn er sá sem Karl bretaprins á og er prýddur með fjölda bóta í hinum ýmsu litum. Ef þú átt vaxjakka sem farið er að sjá á þá má alltaf hafa samband við okkur hjá Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar og við veitum ráðgjöf um viðhald á jakkanum. |
Það er sannur heiður að fá að vera heimili Barbour á Íslandi. Það veitir okkur ómælda ánægju að klæða menn, konur, börn og hunda í vandaðan fatnað frá fjölskyldufyrirtæki sem á sér eins ríka sögu og Barbour. Í dag spannar vörulína Barbour allt frá vaxjökkum, peysum og skyrtum að vasapelum, hundabælum og hitabrúsum.
Verið ávallt velkomin í Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar til þess að kynna ykkur úrvalið hjá okkur. Það má einnig skoða allt sem við eigum inn á vefverslun okkar hér.